Kaffihús í París
Fyrir forfallna kaffifífkla eins og okkur er mjög mikilvægt að finna hinn fullkomna kaffibolla hvar sem við erum stödd. Fyrir okkur þýðir það kaffi sem er bragðsterkt og gott, ekki of beiskt eða súrt og nýtur sín bæði sem espressó og allongé. Þó alls staðar sé boðið upp á kaffi í París er það sjaldan lærður kaffibarþjónn sem hellir uppá. Því skiptir miklu máli að velja vel hvar maður drekkur kaffið sitt. Hér fyrir neðan er listi af bestu kaffihúsum sem við höfum fundið í París, hingað til.
Caféothèque - 52 Rue de l’Hôtel du ville, 4e
Það er ekki hægt að fjalla um kaffi í París án þess að nefna Caféothèque. Þetta notalega kaffihús býður upp á 20-30 mismunandi kaffitegundir frá hinum ýmsu heimshlutum, brenndar og malaðar á staðnum. Einnig er hægt að kaupa sérmalað kaffi fyrir uppáhellingar heimavið og sækja tíma í kaffiskólanum þeirra þar sem hægt er að læra allt sem þarf til að verða barista-roaster. Caféothèque var stofnað árið 2005 af Gloriu Montenegro, fyrrverandi sendiherra Frakklands í Guatemala, og hefur fest sig í sessi sem hornsteinn nútíma kaffimenningar í París. Í innsta salnum er yndislegt að tylla sér innan um plönturnar og vinna, en athugið að eins og víðar í París eru fartölvur óvelkomnar um helgar.
Við erum svo heppin að þetta kaffihús er á horninu við bygginguna okkar í 4. hverfi og því er það líka fyrsta kaffihúsið sem við tylltum okkur inná í París, áður en við áttuðum okkur á að það er eitt af þeim allra bestu í borginni.
Hægt er að læra meira um Caféothèque og kaffiskólann á heimasíðunni þeirra: https://www.lacafeotheque.com/
Café Loustic - 40 Rue Chapon, 3e
Nálægt Pompidou leynist Café Loustic, í lítilli hliðargötu inn af Rue Renard. Ásamt því að vera með einn besta café allongé sem við brögðuðum í borginni býður kaffihúsið einnig upp á ókeypis wifi og notalegt umhverfi til vinnu. Á Loustic, eins og á Caféothèque, eru þó fartölvubannið í gildi um helgar og slökkt er á netinu. Loustic-mönnum er mikið í mun að fólk tali saman á tyllidögum.
Þetta kaffihús reyndist vera einni götu frá íbúð vinkonu okkar en því miður fundum við það ekki fyrr en hún var farin eftir tveggja vikna heimsókn.
http://www.cafeloustic.com/
Fragments - 76 Rue des Tournelles, 3e
Í hljóðlátri og notalegri lítilli götu samhliða Boulevard Beaumarchais, er kaffihúsið Fragments. Þó maturinn sé í dýrari kantinum (8,5 evrur fyrir hrærð egg t.d.) er gómsætt kaffið þeirra á svipuðu verði og annarsstaðar í París, en töluvert betra en víðast hvar. Kaffihúsið er fallega innréttað með gömlum viðarbitum í loftinu, litríkum flísum og svartri framhlið sem sker sig skemmtilega frá rjómalituðum Parísarhúsunum beggja megin. Þó ekkert net sé í boði er gott andrúmsloft til vinnu.
Ef leið þína liggur á Fragments kaffihúsið en þig langar í bragðgóðan kvöldverð í sama nágrenni, skaltu ganga handan við hornið, því á Boulevard Beaumarchais er Café Pola, einn af eftirlætis veitingastöðum okkar í hverfinu.
https://www.instagram.com/fragmentsparis/