Parísardvölin
Við vorum búin að hlakka til þessarar ferðar og skipuleggja í rúmlega hálft ár áður en við loksins héldum af stað. Kjartan fékk að vita af úthlutun Kjarvalsstofu í júlí eða ágúst í fyrra og frá því var ég eiginlega bara komin í biðstöðu, tilbúin að fara út og það eina sem þurfti að gerast var að tíminn þurfti að líða. Og við þurftum að pakka niður heilli íbúð til útleigu. Þrátt fyrir örlítið spennufall sem óhjákvæmilega kemur fyrir þegar einhvers hefur verið beðið með slíkri eftirvæntingu hefur París uppfyllt allar mínar væntingar og farið fram úr þeim.
Mesta breytingin við að fara frá Reykjavík til Parísar var að sjálfsögðu veðrið. Við erum búin að vera óhemju “heppin” þar sem þetta var sennilega hlýjasti febrúar í manna minnum. Ég segi “heppin” því að þetta eru greinilegar afleiðingar loftslagsbreytinga, og þó það sé ósköp indælt að sólbrenna í Versölum í febrúar þá er það ekki jákvætt þegar heilt er á litið. Það kólnaði eilítið aftur í byrjun mars, en það er varla hægt að tala um slæmt veður þegar það versta var örlítil lóðrétt rigning og kannski 10 stiga hiti. Áður en við yfirgáfum borgina var kominn laufhýjungur á einstaka tré, borgin öll að grænka og vakna til lífsins. Ég hlakka til að koma aftur í lok apríl og sjá París í fullum vorskrúða.
Kjarvalsstofa tilheyrir listasamfélagi sem kallast Cité Internationale des Arts, sem er með tvær residensíur í París. Ein í Montmartre hverfi og ein í Le Marais eða Mýrinni í fjórða hverfi. Kjarvalsstofa er í Mýrinni, rétt við Signubakka með Notre Dame í augsýn. Louvre er eitt af ótalmörgum söfnum í göngufjarlægð (sem við slepptum að heimsækja í þessari ferð þrátt fyrir að hafa lagt leið okkar þangað tvisvar sinnum) og hverfið allt iðar af lífi. Þegar maður ímyndar sér París, þá er það Mýrin sem birtist manni. Kremaðar byggingar í þessum ótrúlega sérstaka Parísarstíl raðast eftir götunum og svo virðist sem að á hverju horni sé kaffihús eða veitingastaður. Þetta er hverfi sem ég get hiklaust mælt með ef ferðinni er heitið til Parísar.
Við vissum að við komuna mundi vanta hitt og þetta í íbúðina. Við versluðum nauðsynjar ýmist í H&M Home og Zöru Home en ef ég ætti að mæla með ódýrri verslun með heimilsvörur þá mundi ég benda á HEMA, keðju sem svipar til Tiger og býður upp á allt frá hraðsuðukötlum að snyrtivörum á mjög sanngjörnu verði. H&M Home fannst okkur í dýrari kantiunum miðað við verð þó vissulega fáist margt fallegt þar og gott að versla fyrir lengri dvöl.
Frakkar reyndust okkur hið vingjarnlegasta fólk og við höfum örsjaldan lent í hinum stereótýpíska fúllynda Frakka sem nennir ekki útlendingum. Reyndar höfðum við mjög gaman af manninum sem afhenti okkur íbúðina og virtist halda að ég væri með í för eingöngu til að sinna húsfreyjustörfum. Til að heiðra þessar væntingar grey mannsins fór ég með lyklavöld að stúdíóinu okkar, eins og sannri húsfreyju ber en matseld og þrifum skiptum við bróðurlega á milli okkar.
Maður áttar sig illa á hversu einangruð Reykjavík er í raun og veru fyrr en maður stígur út fyrir hana til meginlands Evrópu. Gæðin á matvælum hér eru margfalt betri (þó vissulega sakni maður ýmissar matvöru að heiman, það er erfitt að finna jalapeno til dæmis þar sem Frakkar virðast ekki of hrifnir af sterkum mat). Veitingastaðir eru ódýrari og meira framboð af þeim. Þau eru ófá skiptin sem við Kjartan höfum gengið um götur þriðja hverfis og látið okkur dreyma um að opna sérhæfða kokteilastaði eða lítil veitingahús heima í Reykjavík eða búðir sem selja eingöngu sultur og munum svo að slíkt mundi aldrei ganga upp heima við.
Mataræði okkar samanstóð að mestu af klassískum frönskum mat og við vorum ekki lengi að finna okkur confit de canard og almennilega franska lauksúpu. Nóg er framboð af annarskonar veitingastöðum, bæði er hægt að fá gómsætt falafel, einhvern besta ítalska mat sem við höfum lagt okkur til munns og dýrindis hamborgara. París er sönn alheimsborg í þeim skilningi. Við urðum fljótt fastagestir í hverfisbakaríinu, ein baguette traditionelle með ostum og sultu gat enst okkur í heilan dag. Á sunnudögum lögðum við gjarnan leið okkar á Bastillumarkaðinn til að kaupa osta, pylsur og annað freistandi góðgæti sem við gátum svo gætt okkur á yfir vikuna eða haft með okkur í lautarferðir. Við skoðuðum nútímalist í Pompidou og hauskúpur í katakombunum, drukkum freyðivín við Signubakka, borðuðum yfir okkur af bráðnum osti á fondú stað, tókum lestina til Versala eða á 5 Guys til að ná okkur í þynnkuborgara. Við fórum í bíó, sátum á kaffihúsum, unnum að verkefnum og drukkum ofgnótt af kaffi, rauðvíni og kokteilum.
Ég elska stórborgir, ég dýrka mannmergð, óhreinindi og lífið sem fylgir þeim. Mér finnst yndislegt að búa innan um allskonar fólk, vera ein af fjöldanum og fá að njóta þeirra lífsgæða sem fylgja. Öll þjónusta sem manni gæti dreymt um innan seilingar, aldrei lengra en 5 mínútna gangur í næsta veitingastað, kaffihús, almenningsgarð eða safn. En slíkar borgir geta líka verið yfirþyrmandi. Allri möguleikarnir, allt sem þú gætir gert þann daginn á það til að magnast upp og á slíkum stundum getur verið erfitt að fara út úr húsi, því hvað ef þú velur vitlaust kaffihús? Kannski var hinn veitingastaðurinn betri? Ertu að missa af einhverju? Fyrir mig hefur þessi Parísardvöl verið blanda þessara tilfinninga, innblástur og spenna yfir þessari mögnuðu borg og svo yfirþyrmandi möguleikar sem lama mig. Við erum ótrúlega heppin að hafa ekki bara fengið þetta tækifæri heldur að hafa haft tök á því að grípa það.
-Kristín
P.S. Við vorum harmi slegin yfir fréttum frá París af brunanum í Notre Dame, sem var uppáhalds nágranni okkar í París, virðuleg og alltaf til staðar. Á myndinni að ofan má sjá turninn sem er nú því miður hruninn. Við trúum því að hún verði endurbyggð en þetta er mikill missir engu að síður.